Þjónustan

handleiðsla einkatímar fræðsla

Í EINKATÍMUM og HANDLEIÐSLU styð ég þá sem til mín leita, ræði og fræði um, eða þjálfa það sem við á hverju sinni. Viðfangsefnin eru til dæmis tengd álagi í störfum, skipulagi, streitu, kulnun og kulnunareinkennum, stjórnunaraðferðum, leiðtogahlutverkinu, samskiptum, breytingum, ábyrgð í starfi, ákvarðanatöku, áföllum í starfsumhverfinu, lífsstíl, sjálfsstyrk og líðan.  

Tímar fara fram hjá Starfsleikni, við Strandgötu 11 í Hafnarfirði eða með fjarfundi ef það hentar betur, til dæmis fyrir þá sem eiga ekki heimangengt, vilja spara ferðatíma, huga að umhverfisvernd, búa utan höfuðborgarsvæðisins, eða eru erlendis.  Einkatími er almennt 50 mínútna langur og er bókaður jafn oft og hver og einn kýs og þörf er á. Fyllsta trúnaðar er að sjálfsögðu gætt.

Til mín leitar fólk á eigin vegum jafnt sem stjórnendur og starfsmenn á vegum fyrirtækja og vinnustaða, einyrkjar, sjálfstætt starfandi aðilar, frumkvöðlar og aðrir sem sinna krefjandi hlutverkum og verkefnum.  Algengt er að handleiðsla og einkatímar séu greiddir af fyrirtækjum og stofnunum sem hafa hagsmuni og vilja til að styrkja starfsmenn eða stjórnendur.  Það er samt ekki algilt og því er um að gera að kanna þátttöku stéttarfélags eða réttindi í sjóðum vegna kostnaðar.

Ég er ekki markþjálfi þótt ég vinni oft mjög svipað og markþjálfar sem vinna til dæmis með fólki við að finna, móta og nálgast markmið sín. Oft hefur fólk bestu ráðin sjálft, veit markmið sín og þekkir tólin og tækin sem virka best fyrir sig, en fær aðstoð mína við að virkja þau og hvatningu, handleiðslu og stuðning til að láta á þau reyna. Ég gef ráð eftir því sem menntun mín, reynsla og tilfinning leyfir og eftir því sem hverjum og einum hentar og hann kærir sig um. Ég er ekki sálfræðingur og tek ekki að mér meðferð eða vinnu vegna alvarlegra geðrænna sjúkdóma. Mín menntun er grunnnám í sálfræði (BS í sálfræði, frá Háskóla Íslands) og sérþekking er á sviði vinnusálfræði  (MSc í viðskiptasálfræði, frá University of Westminster, London) og á sviði heilsusálfræði (MSc í sál-líffræði streitu og álags, frá University of Surrey, Romehapton), auk 20 ára farsællrar starfsreynslu hjá Starfsleikni. Þótt ég sé ekki meðferðarsálfræðingur ræði ég að sjálfsögðu þau mál sem viðkomandi leita til mín með og upp koma í samtölum, veiti stuðning og bendi á lausnir og leiðir eftir því sem við á hverju sinni.

Starfsleikni aðstoðar vinnustaði vegna SAMSKIPTAVANDA, NEIKVÆÐS VINNUMÓRALS EÐA ÁGREININGS sem leiðir til krísu eða vanlíðunar einstaklinga og hópa. Það getur verið vegna vandamála milli einstakra starfsmanna eða innan heilu vinnuhópanna, enda geta vandamál í samskiptum komið upp á bestu vinnustöðum.  Ef samskipti ganga illa í lengri tíma og vandinn verður viðvarandi getur það haft afgerandi áhrif á líðan og heilsu einstaklinga jafnt sem menningu, árangur og ímynd vinnustaðar. Starfsleikni kemur að málum sem hlutlaus utanaðkomandi aðili, hlustað er á sjónarmið þeirra sem vandanum tengjast og kannaður grundvöllur, vilji og leiðir til sátta og úrlausna.  Lögð er áhersla á tilfinningar og vellíðan starfsfólks annars vegar og árangur og menningu vinnustaðar hins vegar. Úrskurðar- og ákvarðanavald er ekki á hendi Starfsleikni, heldur viðkomandi vinnustaðar, stjórnenda eða eigenda.

Starfsleikni tekur að sér HANDLEIÐSLU HÓPA OG TEYMA en áhrifarík teymisvinna er alfarið háð flæðinu í samskiptunum og samstarfinu innan hópsins. Einnig getur handleiðsla fyrir hópa farið fram sem þjálfun vegna samskipta við krefjandi viðskiptavini, leið til að efla samskipti eða samstarf í vinnuhópum, tengst hlutverkaskiptum, álagi, samvinnu ofl. Tekið er á móti allt að 8 manna hópum í vinnuaðstöðu Starfsleikni í Hafnarfirði, en ef er um stærri hópa að ræða fara fundir fram á viðkomandi vinnustað eða þar sem hentar hverju sinni.  Viðfangsefni, skipulag, fjöldi skipta og eftirfylgni er eins og að ofan greinir samkomulag miðað við óskir, aðstæður og möguleika hvers hóps.

KVÖLDKLÚBBAR OG FRÆÐSLUKVÖLD.  Áhugasamir einstaklingar, kúbbar eða félagar geta haft samband og hóað saman í allt að 8 manna hóp sem hittist í  vinnustofu Starfsleikni að kvöldi þar sem umræðuefni og fræðsla er háð samkomulagi um það sem er áhugi er á að kryfja, skoða eða styrkja. Viðfangsefni hafa til dæmis verið styrkur í samskiptum, sjálfsstyrking, að hrósa og taka hrósi, setja fram skoðun sína og taka gagnrýni, standa á rétti sínum, setja mörk og kunna að segja nei, hugleiðsla og slökun gegn streitu og álagi, sjálfsumhyggja, hamingja og vellíðan, hvatning til lífsstílsbreytingar, venjur tengdar mataræði eða hreyfingu ofl. Endilega hafið samband með óskir eða til að fá hugmyndir og hver veit nema það komi eitthvað skemmtilegt og lærdómsríkt út úr því.

Starfsleikni tekur að sér að halda NÁMSKEIÐ, VINNUSTOFUR, FYRIRLESTRA og UMRÆÐUFUNDI fyrir vinnustaði og hópa. Viðfangsefnin tengjast gjarnan samskiptum, teymum, liðsheild og samvinnu á vinnustað, streitu, vinnuvist og vellíðan í störfum, einelti og kynferðislegri áreitni, þjónustu við viðskiptavini, erfiðum eða krefjandi samskiptum við viðskiptavini, breytingum, stjórnun, verkstjórn ofl.  Endilega hafið samband varðandi þarfir ykkar vinnustaðar og við skulum eiga samtal um hvort ég hef lausnina sem ykkur vantar í formi vinnustofu eða fræðslu.