Álag, streita, kulnun

STREITUVALDAR OG VINNUSÁLFRÆÐI

Viðtal sem á enn vel við: Morgunblaðið 28. febrúar 2003

Óáþreifanlegar og áþreifanlegar ógnir

Viðbrögðin sem hentuðu frummanninum svo vel henta sjaldnast í nútíma þjóðfélagi, þar sem streituvaldar eru fyrst og fremst sálfræðilegs eða félagslegs eðlis, en ekki endilega áþreifanlegar ógnir.

Í nýlegri könnun um starfsstreitu kom í ljós að einn af hverjum þremur hefur fundið fyrir streitu vegna atvinnu sinnar. Steinunn Inga Stefánsdóttir hefur sérhæft sig í vinnusálfræði og streitustjórnun og í samtali við Svein Guðjónsson fjallar hún um streituvalda, hvernig greina má vandann og vega að rótum hans.

MIKILVÆGT er að fólki líði vel á vinnustað enda eyða flestir þar stórum hluta ævi sinnar. En vinnan sjálf, eða aðstæður á vinnustað, geta líka verið streituvaldandi og oft má lítið út af bregða til að raska ró manna. Steinunn Inga Stefánsdóttir hefur menntað sig sérstaklega til að fást við slík vandamál, einkum þeim er lúta að streitu sem tengist atvinnu fólks og samskiptum á vinnustöðum. Hún hefur nú opnað ráðgjafaþjónustu fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem meðal annars býður upp á greiningu á álagi og streitu, ráðgjöf í starfsmannamálum auk einkaráðgjafar á stofu fyrir fólk sem vill fyrirbyggja eða leita handleiðslu vegna starfstengdra vandamála, svo sem vegna streitu, samskipta á vinnustað og samspils einkalífs og vinnu.

"Þetta er fræðslufyrirtæki í viðskiptasálfræði og streitustjórnun," sagði Steinunn og bætti við að starfseminni mætti skipta í fjóra meginþætti:

Álags- og streitustjórnun, sem felur í sér fræðslu, handleiðslu, úrlausnir og eftirfylgni í fyrirtækjum og stofnunum. Ráðgjöf í starfsmannamálum og ýmsir fyrirlestrar fyrir stjórnendur eða starfsmannahópa, svo sem álags- og streitustjórnun, samskipti og persónuleikamunur á vinnustöðum, áhrif vinnustaðamenningar, samningatækni og lausn ágreiningsmála, þróun og þjálfun teyma og fleira.

Einkatímar og handleiðsla á stofu, fyrir stjórnendur jafnt sem annað starfsfólk. Hér er bæði um að ræða fyrirbyggjandi handleiðslu fyrir þá sem vilja öðlast meiri leikni í að takast á við kröfur vinnuumhverfisins og handleiðsla og þjálfun við að nota aðferðir til að draga úr neikvæðum afleiðingum streitu og starfstengdra vandamála.

Starfspersónuleikakannanir fyrir þá sem vilja auka leikni sína í starfi og samskiptum.

Vinnusálfræði og streitustjórnun

Steinunn Inga lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1987 og BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1994. M.Sc.-gráðu í viðskiptasálfræði (Business Psychology) frá University of Westminster í London árið 2001 og auk þess hefur hún lokið M.Sc.-gráðu frá University of Surrey Roehampton á Englandi í streitufræðum (Psychobiology of stress), eða því sem hún kallar streitustjórnun.

Steinunn sagði að námið í viðskiptasálfræðinni hefði opnað augu sín fyrir því að á þessu sviði væri óplægður akur og jafnframt að "eitthvað vantaði inn í pakkann" eins og hún orðaði það. "Eftir því sem ég kynnti mér þetta betur sá ég hversu mikið vandamál streita er orðin í daglegu lífi manna og hvernig hún hamlar eðlilegri starfsgetu fólks. Leiðbeinandi minn hvatti mig til að kynna mér þessi mál nánar og ég ákvað að bæta við mig þekkingu á þessu sviði. Námið grundvallast á skilningi á orsökum, einkennum og afleiðingum streitu, áhrifum einstaklingsmunar, sálfræðilegra-, líffræðilegra- og félagslegra þátta, svo sem þátta er varða uppbyggingu, stjórnun og samskipti innan fyrirtækja.

Leiðbeinandi minn í streitufræðum var dr. Valerie J. Sutherland, virtur vinnusálfræðingur á sviði streitustjórnunar. Það var frábært að vinna undir hennar handleiðslu, ekki síst vegna þess að það leiddi til þess að nú hefur hún boðið mér áframhaldandi samstarf sem er ómetanlegt fyrir mig."

Af hverju stafar streita?

Streita er orð sem okkur nútímamönnum er tamt í munni, enda virðist þetta fyrirbæri vera óhjákvæmilegur fylgifiskur daglegs lífs og flestir hafa einhvern tíma fundið fyrir óþægindum sem kenna má við streitu. Í mismunandi mæli að vísu og einstaklingar eru misjafnlega í stakk búnir til að glíma við þetta vandamál. Steinunn var spurð um hvað fælist í raun í þessu orði, streitu?

"Streita er afleiðing streituvalda eða of krefjandi áreita. Að upplifa of krefjandi aðstæður til langs tíma getur leitt til líkamlegs og andlegs ójafnvægis, sem kallað er streita. Streita er ekki sjúkdómur heldur ástand sem hlýst af neikvæðu ferli tilfinninga, líffræðilegra og atferlislegra viðbragða, sem hafa í för með sér fjölda neikvæðra afleiðinga, þar með talið sjúkdóma.

Að upplifa streitu er að hluta til háð huglægu mati okkar á aðstæðum okkar eða þeim björgum sem við höfum til þess að ráða við álag og streitu. Umræddar bjargir eru annars vegar það sem kalla má innri bjargir, til dæmis menntun og þekking, fyrri reynsla af því að mæta svipuðum aðstæðum eða mat á eigin styrk og getu og hins vegar ytri bjargir svo sem tími, stuðningur yfirmanns eða fjölskyldu, aðgangur að upplýsingum eða umboð til athafna. Streita er því tilkomin vegna ójafnvægis milli umhverfisins og þeirra bjarga sem við höfum eða teljum okkur hafa til þess að mæta þessum kröfum. Huglægt mat á umhverfi okkar og aðstæðum hefur sem sagt töluvert það að segja hvort við verðum fangar streitu. Verkefni sem veldur einum starfsmanni eða einstaklingi streitu getur virkað sem skemmtileg áskorun fyrir annan.

Það má samt alls ekki skilja það svo að streita sé aðeins tilkomin vegna veikleika eða rangs mats einstaklings á aðstæðum sínum. Maðurinn lifir ekki einangraður frá umhverfi sínu. Samspil einstaklings og umhverfis veldur streitu. Staðreyndin er að við lifum á tímum gífurlegra breytinga og kröfurnar um afköst og getu eru einfaldlega stundum ómanneskjulegar."

En hvaða tilgangi þjóna þá þessi streituviðbrögð?

"Fólk hefur jú alltaf mætt álagi eða ógn í umhverfi sínu. Forfeður okkar þurftu ósjaldan að berjast eða flýja til þess að komast af. Líkamleg og andleg baráttu- eða flóttaviðbrögð við tímabundnu álagi voru mjög hentug á tímum daglegra ógna í formi ljóna eða annarra rándýra á eyðimörkinni. Líffræðileg ferli sem spenntu upp líkamann til að gera hann tilbúinn til átaka gátu gert gæfumuninn hvað varðar hvort sá sem mætti ógn, í formi rándýrs eða óvinar, komst lífs af. Þessi líffræðilegu ferli eru undir stjórn tauga-, kirtla- og ónæmiskerfisins sem bregðast við álagi með því til dæmis að auka flæði streituhormónsins cortisols og einnig adrenalins og noradrenalíns og gera líkamann tilbúinn til átaka. Í því felst að orka líkamans fer meira og minna í að mæta líkamlegu skammtímaálagi, vöðvar spennast upp, hjartsláttur eykst, andardráttur verður grunnur og ör og það hægir á meltingu og annarri viðhaldsstarfsemi líkamans.

Andleg og líkamleg svörun gengur sem sagt út á að bjarga sér og það strax. Ef það tekst þá leitar starfsemi líkama og hugar aftur í jafnvægi. Þetta er ástæða þess að stundum er talað um að svolítið stress sé gott. Mér finnst miklu eðlilegra að tala um að mikilvægt sé að hafa hæfilegt álag í umhverfinu til þess að ná fram því besta í okkur með metnaði og hæfilegri vinnu sem heldur okkur áhugasömum. Streita er bara alls ekkert góð, en álag er í lagi ef við ráðum við það!

Vandamálið er að eins og aðstæður eru í dag er æði algengt að álagið sé allt of mikið, það er þetta misræmi milli krafna umhverfisins og bjarganna sem við höfum eða teljum okkur hafa til að mæta kröfunum. Viðbrögðin sem hentuðu frummanninum svo vel henta sjaldnast í nútímaþjóðfélagi þar sem streituvaldar eru fyrst og fremst sálfræðilegs eða félagslegs eðlis en ekki endilega áþreifanlegar ógnir. Það eru almennt ekki verkin sjálf sem valda okkur streitu, eða eðlisfræðilegar vinnuaðstæður, til dæmis hvort stóllinn sé þægilegur og skrifstofan stór, heldur er samskiptastreita mesta vandamálið. Ef fólk lítur í eigin barm mun það finna að það hefur oftar komið heim úr vinnu útkeyrt af neikvæðum samskiptum við fólk, væntingum og kröfum viðskiptavinnanna eða stjórnunarstíl á sínum vinnustað fremur en verkefninu eða hlutlægum aðstæðum.

Hin ósjálfráðu viðbrögð líkamans sem líklegast fylgja þróun mannsins og búa okkur undir að bretta upp ermarnar og sýna hnúana eða iljarnar eru ekki líkleg til þess að hjálpa okkur að komast af í nútíma starfsumhverfi. Að upplifa illviðráðanlegar aðstæður til langs tíma þýðir að líkami og sál eru á stöðugum suðupunkti. Því hefur verið líkt við að standa bensíngjöf bíls í botni með hinn fótinn á bremsunni. Eitthvað mun láta undan að lokum og þá koma í ljós margvíslegar neikvæðar afleiðingar streitu, bæði fyrir einstaklinginn og fyrirtækið."

Viðvörunarbjöllur

Talið beinist að afleiðingum langvarandi streitu, verkkvíða og starfsþreytu gagnvart vinnunni, en um þetta sagði Steinunn meðal annars:

"Langvarandi streita getur leitt af sér kvíða og þunglyndi. Kvíði getur verið af ýmsum toga, svo sem verkkvíði, þar sem fólk miklar fyrir sér verkefni sem því er falið að fást við. Eins geta menn farið að kvíða því að fást við algengar daglegar og venjulegar athafnir. Í sumum tilvikum gengur þetta svo langt að viðkomandi fær svokallað "ofsakvíðakast". Þetta getur svo leitt til þunglyndis en skilin milli kvíða og þunglyndis eru oft óljós. Langvarandi starfsþreyta, sem á síðasta stigi er kallað "kulnun", leiðir af sér að viðkomandi er gjörsamlega orðinn óvinnufær, andlega og líkamlega. Af neikvæðum afleiðingum streitu fyrir fyrirtæki má nefna einbeitingarskort, nýsköpunargetan hverfur, menn eiga erfitt með að taka ákvarðanir, annaðhvort fresta því eða að taka ákvarðanir sem eru fljótfærnislegar, áhættusamar eða beinlínis rangar.

Langvarandi streita getur valdið breytingum á atferlismynstri, til dæmis aukinnar áfengis-, tóbaks- og koffínnotkunar og stundum leita menn í sætan og fituríkan mat sem gefur þeim tímabundna skyndiorku eða í neyslu á ávanabindandi verkjalyfjum eða vímuefnaneyslu."

Steinunn sagði ennfremur að andleg vanlíðan á vinnustað leiddi oft til skamskiptakrísu og ýmissa fjölskylduvandamála, sem vitaskuld væri ekki til að bæta aðstæður viðkomandi.

Um einkenni sálrænna vandamála á byrjunarstigi sagði Steinunn að ýmsar "viðvörunabjöllur" hringdu oftast áður en komið væri í óefni:

"Af líkamlegum einkennum má nefna, auk líkamlegrar spennutilfinningar, vöðvabólgu, tilfinningu um kökk í hálsi, aukna svitamyndun, meltingartruflanir og höfuðverki svo fátt eitt sé nefnt. Andleg einkenni geta verið svefnleysi og verkkvíði. Auðvitað er fólk misjafnlega í stakk búið til að takast á við aðsteðjandi vandamál, en ég tel að afar mikilvægt sé að menn átti sig á því í tæka tíð hvert stefnir og leiti sér þá aðstoðar áður en í óefni er komið. Reyndar er mín skoðun sú að allir, hvort sem þeir telja sig finna fyrir streitu eða ekki, eigi að vera undir stöðugu eftirliti og ráðgjöf til að sinna forvörnum hvað þetta varðar."

Steinunn sagði að í nýlegri könnun, sem gerð var hér á landi, hefði komið í ljós að tæplega einn af hverjum þremur aðspurðra kváðust finna fyrir streitu vegna vinnu sinnar

A-týpan í áhættuhópi

Nú er stundum talað um svokallaða vinnufíkla, það er fólk sem unir sér hvergi betur en í vinnunni. Eru einhver tengsl þarna á milli og eru þeir, eða einhverjar ákveðnar manngerðir, í meiri hættu hvað þetta varðar?

"Í nútímaþjóðfélagi, þar sem eru miklar sveiflur í atvinnulífinu með tilheyrandi niðurskurði og uppsögnum, getur svokölluð "vinnufíkn" verið liður í sjálfsbjargarviðleitni. Fólki finnst að það verði að sanna sig og sýna vinnuveitendum að það sé ómissandi, einfaldlega til að halda vinnunni. Hins vegar kemur þetta líka fram í persónuleikagerðinni.

Í sálfræðinni er stundum talað um svokallaðar A-týpur annars vegar og B-týpur hins vegar. Ákveðin persónuleikaeinkenni eru sameiginleg fólki sem hefur mikinn metnað gagnvart vinnunni og gerir miklar kröfur til sjálfs sín í starfi. Er með öðrum orðum ofboðslega duglegt í öllu sem það tekur sér fyrir hendur. Þetta er A-týpan. Hún vinnur hratt, borðar hratt og talar hratt. Hún virðist þrífast best í samfélagi þar sem ríkir mikil áskorun og hraði. Rannsóknir benda til að þessum vinnu- og hraðafíklum er mun hættara við ýmsum líkamlegum afleiðingum streitu, meðal annars aukinni tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, sérstaklega ef viðkomandi hefur líka tilhneigingu til andúðar eða pirrings í samskiptum á vinnustað. Rannsóknir hafa ennfremur sýnt að A-týpan er líklegri til að lenda í vinnutengdum slysum.

B-týpan er aftur á móti þessi rólega manngerð sem fer sér hægar í öllu, en getur þó engu að síður náð sínum markmiðum. Hún er andstæðan við A-týpuna og laus við þessi persónuleikaeinkenni sem einkenna A-týpuna. En augu fólks eru að opnast fyrir því að þessar A-týpur eru líka það sem kallað er "stress carrier", þeir eru streitu-berar. Ekki bara að þeir séu að valda sjálfum sér streitu og aukinni tíðni hjartaáfalla heldur valda þeir einnig þeim sem umgangast þá á vinnustað, ákveðnum erfiðleikum og streitu með framgöngu sinni. A-týpan er ef til vill gríðarlega öflugur starfsmaður þar sem hún gerir miklar kröfur til sjálfrar sín, en þar með er því ekki lokið því henni hættir til að gera sambærilegar kröfur til samstarfsfólks eða undirmanna, ef um stjórnanda er að ræða. Með ýtni sinni og væntingum eru þeir því í rauninni að valda streitu meðal vinnufélaganna. Auðvitað getur verið akkur fyrir fyrirtæki að hafa svona duglegt fólk í vinnu, að minnsta kosti til skamms tíma. En menn verða þá líka að gera sér grein fyrir afleiðingunum sem það getur haft til langframa þar sem það er oft erfitt fyrir aðra að vinna með þessu fólki. Í þessu samhengi má vissulega leiða rök að því að B-týpan sé betur sett, bæði gagnvart sjálfri sér og öðrum, ef til lengri tíma er litið."

En má ekki líka segja um B-týpuna að þar fari fólk sem hefur ekki nægilegan metnað í starfi?

"Nei, alls ekki. Það fer eftir því hvernig það er skilgreint og hvort þú ert að hugsa um heilsu fólks og langtímamarkmið fyrirtækja eða bara skammtímaverkefni, sem þarf að klára fyrir hádegi í dag. Einnig má benda á að það er ekki endilega fylgni á milli þess að vera áberandi og snöggur og vinnuframlags eða gæða vinnunnar. Mér finnst umhugsunarvert varðandi íslenskt þjóðfélag hversu mikill hraði er á öllum sviðum, væntingar eru miklar og sömuleiðis kröfur. Einstaklingar virðast gleyma því að setjast niður og spyrja sig hvert þeir sjálfir vilja stefna í lífinu og hvort þeir séu á réttri leið til að ná þeim markmiðum. Margir eru uppteknir af því hvað öðrum finnst og því sem þeir halda að aðrir vilji sjá þá gera. Mikil áhersla er lögð á velgengni og árangur. En í hverju felst það? Er það velgengni að hafa komist á þennan svokallaða topp en sitja uppi með magasár og svefnlausar nætur? Eða er velgengni að skoða sín markmið og ná þeim á sínum eigin forsendum, og að sjálfsögðu um leið að taka tillit til krafna umhverfisins. Umhverfið gerir vissulega kröfur til okkar og við þurfum að vera móttækileg fyrir þeim, en við megum ekki láta kröfurnar stjórna okkur.

Streitustjórnunarstefna

Varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir sagði Steinunn að ýmsar aðferðir væru tiltækar, mismunandi eftir eðli vandamálsins og ennfremur eftir einstaklingum og starfsaðstæðum. "Mikilvægast er að fólk fái hjálp við að greina hvað það er sem veldur streitu í þeirra lífi og það er meðal annars sú þjónusta sem ég býð upp á. Þegar sú greining er fengin er hægt að vega að rótum vandamálsins. Í fyrsta lagi með því að fjarlægja þá streituvalda sem hægt er að fjarlægja, breyta því sem hægt er að breyta og milda áhrifin eins og hægt er. Síðan geta menn fengið aðstoð við hagnýtar aðferðir til að ráða við þau streitueinkenni og álag sem ekki er hægt að komast hjá.

Steinunn sagði ennfremur að fyrirtæki þyrftu að innleiða markvissa streitustjórnunarstefnu og í því felast meðal annars, eins og mælt er með til dæmis af Vinnueftirliti ríkisins og Evrópsku vinnuverndarstofnuninni, að greina og meta það í vinnuumhverfinu sem veldur álagi og streitu, fjarlægja, breyta eða milda það álag sem unnt er að hafa stjórn á, búa fólki viðunandi starfsaðstæður og styrkja það til að ráða við þá streituvalda sem ekki er unnt að fjarlægja, til dæmis með því að bjóða upp á hópfræðslu eða styrkja viðkomandi til að leita sér einkaráðgjafar.

"Mikilvægi greiningarþáttarins á vinnuumhverfi er afar mikið en er því miður oft vanmetið en það er mjög mikilvægt fyrir stjórnendur að gera sér grein fyrir að ýmsu er unnt að breyta í starfsumhverfinu," sagði Steinunn jafnframt um þessa þætti streitustjórnunarstefnu fyrirtækja. "Það þarf að greina hvað veldur streitunni um leið og starfsfólk er sent á streitustjórnunarnámskeið og fyrirlestra til þess að vera betur í stakk búið til að mæta álaginu. Rannsóknir benda til þess að ef streitustjórnun í fyrirtækjum miðar aðeins að því að gera starfsfólk hæfara til að mæta álaginu, í fyrsta lagi, er aukin vellíðan starfsfólks að loknum námskeiðum tímabundin og fólk líklegt til að lenda í sama neikvæða vítahringnum ef álag og aðstæður á vinnustað helst það sama. Í öðru lagi má velta fyrir sér siðferðinu sem felst í skilaboðunum til starfsmannsins, það er að segja: "Farðu á námskeið eða leitaðu þér hjálpar til þess að ráða betur við álagið sem er hér, en við ætlum engu að breyta hjá okkur." Það sem skiptir þó allra mestu máli er að leggja í langtímafjárfestingu og fyrirbyggja streitu frekar en að bíða eftir því að bregðast þurfi við eftir að vandamálin eru komin upp."

svg@mbl.is

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/716948/